Erlent

Þjóðernissinnar taldir á undanhaldi

Þórir Guðmundsson skrifar

Fréttaskýrendur segja að kosningarnar í Póllandi séu viðvörun til öfgaflokka í Mið- og Austur-Evrópu um að stuðningur við þá sé að minnka.

Sigurvegari kosninganna Donald Tusk fagnaði ákaft í gærkvöldi. Í stjórnartíð Kaczynski bræðranna tókst Pólverjum að skapa sér orðstír sem óvenju þrætugjarnir í öllum samskiptum innan Evrópusambandsins.

Enda var Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESBaugljóslega létt í dag. Hann sagðist meðal annars aldrei hafa verið í vafa um stuðning Pólverja við Evrópusambandið og lýðræðið.

Fréttaskýrendur segja að pólskir kjósendur hafi á þeim þremur árum sem landið hefur verið í Evrópusambandinu skipt um skoðun varðandi aðildina. Komið hafi í ljós að gallarnir við aðild hafi verið minni en andstæðingar ESB héldu fram og kostirnir meiri.

Í Ungverjalandi þrömmuðu þjóðernissinnar í dag um götur Búdapest, íklæddir svörtum búningum líkt og fasistar á millistríðsárunum gerðu. Ef kosningarnar í Póllandi marka veðraskil í afstöðu manna í Mið- og Austur-Evrópu gagnvart Evrópusambandinu þá ættu hinar svartklæddu sveitir ekki að hafa mikla framtíð fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×