Innlent

Stærsta fyrirtæki Bakkafjarðar selt á nauðungaruppboði

Örlög Bakkafjarðar eru í höndum Byggðastofnunar eftir að stærsta fiskvinnsla byggðarlagsins, sem veitt hafði meirihluta íbúanna atvinnu, var slegin stofnuninni á nauðungaruppboði. Kristinn Pétursson, fyrrverandi alþingismaður, og eiginkona hans, sem byggðu upp fyrirtækið, sitja eftir eignalaus. Sýslumaðurinn á Húsavík, Halldór Kristinsson, í fylgd yfirlögregluþjóns, er mættur á Bakkafjörð, einnig lögfræðingar og aðrir fulltrúar lánadrottna fiskvinnslunnar Gunnólfs. Nauðungaruppboð stendur yfir á fyrrum stærsta atvinnufyrirtæki þessa fámenna þorps. Þar til í fyrra unnu þarna að staðaldri um þrjátíu manns, drjúgur meirihluti vinnufærra manna í byggðarlaginu. Rekstrinum var hætt fyrir rúmu ári, þegar fyrirtækið réð ekki lengur við skuldirnar, sem dráttarvextirnir höfðu hjálpað til við að hækka upp í 200 milljónir króna. Fjórar fasteignir stóðu að veði sem nú voru seldar hæstbjóðanda. Fiskvinnsluhúsin fóru fyrir lítið. Eitt á sjö millónir króna, annað á þrjár milljónir en það stærsta á 21 milljón. Samtals byggingar upp á 2.200 fermetra með öllum búnaði, allar slegnar Byggðastofnun. Loks er komið að því að bjóða upp æskuheimili framkvæmdastjórans, Kristins Péturssonar, sem stofnaði fyrirtækið fyrir 22 árum og rak það ásamt eiginkonu sinni, Hrefnu S. Högnadóttur. Þau eru nú eignalaus. Uppboðið fer fram í eldhúsinu en á sama tíma ræddi Björn Þorláksson við Kristin á Akureyri.

Hann kennir aflasamdrætti mest um. Kvótalaus fiskvinnslan gat ekki lifað. Afleiðingar sjást á mannfjöldatölum, íbúum hefur á fáum árum fækkað um 40 prósent, úr 130 manns niður í 80.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×