Innlent

Einkavæðing leikskóla ekki lausn á manneklu

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi. MYND/365

Einkavæðing leikskóla er ekki lausn á núverandi manneklu að mati Sigrúnar Elsu Smáradóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa Samfylkingarinnar í leikskólaráði Reykjavíkur. Hún gagnrýnir ummæli formanns leikskólaráðs sem segist vilja kanna einkarekstur til að draga úr manneklu.

„Við erum ekki á móti einkaskólum en það er fráleitt að halda það sé lausn á þessum vanda," segir Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í leikskólaráði Reykjavíkur, í samtali við Vísi.

Í yfirlýsingu sem Sigrún Elsa sendi frá sér í kvöld gagnrýnir hún ummæli Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs Reykjavíkur, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar kom fram að Þorbjörg vill skoða einkarekstur og láta kanna hvort atvinnurekendur vilja opna sérstaka leikskóla fyrir sína starfsmenn. Ennfremur vill hún skoða hvort borgin geti bætt kjör leikskólakennara.

Í yfirlýsingu segir Sigrún að málflutningur Þorbjargar sé með hreinum ólíkundum og til marks um algert úrræðaleysi og uppgjöf vegna manneklu á leikskólum borgarinnar. Þá segir Sigrún ennfremur að það sé lúalegt af formanninum að nota núverandi ástand til að ýta hugmyndum um einkavæðingu í gegn.

Sigrún bendir á að þrátt fyrir að um 150 starfsmenn vanti til starfa á leikskólum hafi starfsemi þeirri styrkst verulega á undanförnum árum. Árið 1992 hafi starfsmenn verið 875 talsins en í fyrra hafi þeir verið 1.510. Þá hefur dvalarstundum barna fjölgað úr 23.543 árið 1992 í 47.832 í fyrra.

Sigrún segir það samfélagslega brýnt að leysa þennan vanda sem fyrst. „Við verðum að leita annarra leiða til að glíma við mannekluna. Til dæmis með beinum og óbeinum launahækkunum til handa leikskólakennurum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×