Innlent

Bæjarins beztu 70 ára og pylsan á 20 kall um helgina

Elsti veitingastaður landsins, Bæjarins beztu, er 70 ára í dag. Í tilefni afmælisins fæst pylsan og kókið á 20 krónur um helgina, laugardag og sunnudag. Öll velta helgarinnar fer til stuðnings Konukoti.



Bæjarins bezta hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá árinu 1937 og nú er fjórða kynslóðin farin að setja tómatinn og laukinn í brauðið.

Fáir íslenskir veitingastaðir njóta jafnmikilla vinsælda, hvort sem horft er til Íslendinga eða ferðamanna auk þess sem ríkulega er fjallað um staðinn í erlendum tímaritum og á ferða-vefsetrum.

Sprenging varð í vinsældum staðarins á leiðtogafundi Reagans og Gorbatsjoffs í Reykjavík að sögn Guðrúnar Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra Bæjarins beztu. Hún segir að fréttamenn hafi þurft eitthvað annað að fjalla um en hurðarhúninn á útihurðinni á Höfða.

Fyrir réttum tveimur árum valdi breska tímaritið The Guardian Bæjarins beztu sem annan besta veitingastandinn í allri Evrópu. Blaðamaður Guardian sagði að íslenska pylsan væri sú besta í öllum heiminum.

Íslenska pylsan er að hluta til dönsk að uppruna en lambakjötið fær þó að njóta sín og gefur pylsunni algjöra sérstöðu. Brauðið hvíta þykir líka ómissandi en í gamla daga var pylsan gjarnan borðuð í vínarbrauði.

Einn frægasti einstaklingurinn til að snæða á Bæjarins beztu er án vafa Bill Clinton. Það eru líka ekki allir veitingastaðir sem geta státað af því að réttur heiti í höfuðið á fyrrum bandaríkjaforseta. Clinton er pylsa í brauði með sinnepi og engu öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×