Innlent

Náfrændi Björgólfs ekki ráðinn til Eimskips í gegnum klíku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur og Björgólfur eru frændur.
Guðmundur og Björgólfur eru frændur. Samsett mynd

Eimskip réð Guðmund Davíðsson forstjóri yfir starfsemi félagsins á Íslandi. Guðmundur er bróðursonur Björgólfs Guðmundssonar, en félag í hans eigu á 33,15% í félaginu. Hann neitar því að hafa verið ráðinn í gegnum klíku.

„Hvort ég er ráðinn í gegnum klíkuskap eða ekki er annarra að svara. En ég tel mig vera að koma inn með þá þekkingu sem nýtist fyrirtækinu," segir Guðmundur. Hann segist hafa unnið með Baldri Guðnasyni, forstjóra Eimskips, í 13 ár og hafa mikla reynslu af rekstri flutningafyrirtækja.

Í sama streng tekur Ásgeir Friðgeirsson talsmaður Björgólfs. Hann segir að Guðmundur hafi mikla reynslu sem geti nýst fyrirtækinu og njóti stuðnings meirihluta eigenda.

Í tilkynningu frá Eimskip segir að Guðmundur Davíðsson hafi áralanga reynslu af stjórnun fyrirtækja ásamt því að hafa setið í stjórnum margra félaga.

„Hann starfaði nú síðast sem framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Grettis. Hann var þar áður forstöðumaður markaðsmála og vöruþróunar á fyrirtækjasviði Landsbankans á árunum 2003-2007. Hann var hjá SIF frá árinu 2000 til 2003 síðast sem framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá SIF í Frakklandi. Guðmundur starfaði hjá Samskipum um 12 ára skeið í ýmsum stjórnunarstörfum hérlendis og erlendis," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×