Innlent

Sjálfsvíg ungmenna fátíðari hér en í öðrum vestrænum ríkjum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Færri ungmenni undir 20 ára fremja sjálfsvíg her en í öðrum vestrænum ríkjum.
Færri ungmenni undir 20 ára fremja sjálfsvíg her en í öðrum vestrænum ríkjum. Mynd/ Visir.is

„Hlutfallslega færri ungmenni í aldurshópnum 13 - 20 ára fremja sjálfsvíg á Íslandi en í öðrum vestrænum löndum," segir Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Landlæknisembættinu. Um tvö til þrjú ungmenni undir tvítugu hafa tekið sitt eigið líf á hverju ári það sem af er þessari öld. „Árið 2000 var mjög erfitt. Þá frömdu níu einstaklingar undir tvítugu sjálfsvíg. Síðan þá hafa þetta verið 2-3 á ári," segir Salbjörg. Hún bendir á að tölur fyrir árið 2006 séu ekki komnar en von sé á þeim.

Salbjörg segir það ákaflega fátítt að íslenskir unglingar undir 15 ára aldri fremji sjálfsvíg en það hafi þó komið fyrir. „Þau hjá Barna- og unglingageðdeild finna náttúrulega mikið fyrir því að börn og unglingar geri sjálfsvígstilraunir. En það er þá stöðvað á elleftu stundu," segir Salbjörg. Hún bendir á að sjálfsvígstölur geti verið skekktar þvi í sumum tilfellum sé erfitt að meta hvort fólk hafi dáið af eigin ásetningi eða ekki. Til dæmis þegar um er að ræða bílslys eða ofneysla lyfja.

Salbjörg segir að þær forvarnir sem hafi verið í gangi að undanförnum árum í skólum hafi greinilega skilað sér. Fagaaðilar sem starfa með börnum innan skólakerfisins, svo sem kennarar, námsráðgjafar og skólahjúkrunarfræðingar séu orðnir mun meðvitaðari um vanlíðan barna en áður var. Þeir geti því brugðist fyrr við ef þeir sjá merki um að eitthvað sé að.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að sjálfsvígum meðal bandarísks æskufólks á aldrinum 10-24 ára fækkaði á árunum 1990-2003 en hafi fjölgað síðan þá. Sjálfsmorð eru þriðja algengasta dánarorsök ungra Bandaríkjamanna á eftir bílslysum og morðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×