Innlent

Novator skoðar möguleika á að fjárfesta í netþjónabúi

Björgólfur Thor: Novator skoðar fjármögnun á netþjónabúi.
Björgólfur Thor: Novator skoðar fjármögnun á netþjónabúi.
Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, skoðar nú möguleikana á að fjárfesta í netþjónabúi hérlendis. Eins og fram kom í fréttum hér á Vísi í gær vill Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að íslenskir aðilar byggi netþjónabú hér og kvaðst ráðherrann bjartsýnn á að svo gæti orðið. Samkvæmt heimildum Vísis er Novator eitt af þeim íslensku fyrirtækjum sem til greina koma í þessum efnum.

Ásgeir Friðgeirsson fjölmiðlafulltrúi Björgólfs Thors segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um netþjónabú á vegum Novators. Aðspurður um hvort félagið hafi skoðað þennan möguleika segir Ásgeir að á vegum þess vinni 20-30 manns við að skoða fjárfestingarmöguleika um allan heim. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Eins og fram hefur komið í fréttum víða að undanförnu er Ísland talið ákjósanleg staðsetning fyrir netþjónabú sökum þess hve orkufrek slík starfsemi er. Hefur Microsoft m.a. verið nefnt til sögunnar og að það fyrirtæki hafi áhuga á að skoða möguleikana á netþjónabúi hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×