Innlent

Fundað um málefni Gjástykkis í bæði umhverfis- og iðnaðarnefnd

Helgi Hjörvar er formaður umhverfisnefndar.
Helgi Hjörvar er formaður umhverfisnefndar.

Umhverfisnefnd kom saman nú klukkan hálfellefu þar sem meðal annars á að ræða málefni Gjástykkis í grennd við Mývatn og málefni Múla- og Fjarðarárvirkjana. Þá fundar iðnarðarnefnd síðar í dag um málefni Gjástykkis.

Fram kom í fréttum í síðustu viku að Landvernd og Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi hefðu óskað eftir því að báðar þingnefndirnar rannsökuðu hvernig staðið var að veitingu leyfis til jarðhitarannsókna í Gjástykki, en Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, gaf út leyfið tveimur dögum fyrir síðustu þingkosningar, þann 10. maí. Samtökin héldu því fram að umsókn um leyfið hefði borist tveimur dögum áður, þann 8. maí.

Bæði Jón og forsvarsmenn Landsvirkunar, sem fékk rannsóknarleyfið, segja að umsókn um rannsóknarleyfi hafi verið lögð inn hjá iðnaðarráðuneytinu árið 2004. Bréfið sem sent hafi verið 8. maí hafi verið ítrekunarbréf. Þá sagði Jón öll gögn varðandi leyfið hefðu legið fyrir og hann hefði vel getað gefið út leyfið nokkrum vikum fyrr. Umhverfis- og iðnarðarnefndir Alþingis hyggjast engu að síður fjalla um málið og verða gestir kallaðir á fundi þeirra í dag vegna málsins.

Málefni Fjarðarárvirkjunar og Múlavirkjunar komust í fréttirnar fyrr í sumar eftir að í ljós kom að upphaflegum áætlunum um virkjanirnar var ekki fylgt eftir. Fjallað verður um málið á fundi umhverfisnefndar sem fyrr segir og verða kallaðir til gestir vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×