Innlent

Slitnar upp úr samningaviðræðum Icelandair og flugmanna

MYND/365

Upp úr slitnaði í dag í viðræðum Icelandair og Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna ágreinings um forgangsréttarákvæði í kjarasamningum flugmanna við félagið. Flugmenn hafa boðað félagsfund á Grand Hótel í kvöld vegna málsins. Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að deilan sé komin á byrjunarreit eftir að samkomulag náðist milli deiluaðila í sumar.

„Það kom upp grundvallar ágreiningur í viðræðunum sem reyndist erfitt að brúa," sagði Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður Félags Íslenskra atvinnuflugmanna, í samtali við Vísi. „Þetta snýst um túlkun á atriðum kjarasamnings sem segir að við höfum forgang til vinnu. Fulltrúar Icelandair segja hins vegar að forgangsréttarákvæðið eigi ekki við í þessu tiltekna máli."

Deilan blossaði upp í sumar eftir að ellefu íslenskum flugmönnum og 24 sumarstarfsmönnum var sagt upp störfum. Á sama tíma réð Icelandair erlenda flugmenn í gegnum áhafnaleigur til dótturfélagsins Latcharter í Lettlandi. Vilja flugmenn meina að Icelandair geti ekki sagt upp íslenskum flugmönnum en á sama tíma ráðið erlenda flugmenn til starfa og vísa í forgangsréttarákvæði í kjarasamningi máli sínu til stuðnings. Icelandair hefur hingað til talið að í þessu tilviki eigi forgangsréttarákvæðið ekki við.

Samkomulag náðist milli deiluaðila í sumar og var ákveðið að hefja viðræður um forgangsréttarákvæðið. Upp úr þeim samingarviðræðum slitnaði í dag.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×