Innlent

Namibíufanginn kominn heim

Maðurinn þurfti að dúsa í tvær vikur í fangageymslu.
Maðurinn þurfti að dúsa í tvær vikur í fangageymslu. MYND/AFP

Íslendingur sem handtekinn var fyrir drykkjulæti í Namíbíu kom til Íslands í gær. Vilhjálmur Wiium, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og staðgengill sendiherra í Namibíu staðfestir þetta í samtali við Vísi. Maðurinn þurfti að dúsa í fangelsi í hálfan mánuð við frekar slæman kost.

Maðurinn var handtekinn 21. ágúst fyrir drykkjulæti og kom þá í ljós að hann var án landvistarleyfis. „Þetta mál leystist farsællega að lokum," segir Vilhjálmur. „Hann kom til íslands í gær að því er ég best veit, segir hann. Að sögn Vilhjálms var maðurinn ákærður fyrir að vera án leyfis í landinu. Hann gekkst við sök, borgaði sekt og var að því loknu vísað úr landi. Hann þurfti þó að dúsa í fangelsi í tvær vikur á meðan málið var í vinnslu, en Vilhjálmur segir það ekki óeðlilegt. „Svona ganga hlutirnir nú bara fyrir sig hér í Namibíu, segir Vilhjálmur.

Aðspurður hvernig aðbúnaður í fangelsum í landinu sé segir Vilhjálmur að ekki sé um flott gistiheimili að ræða. „Ég hef þó fengið fréttir af því að maðurinn var einn í klefa. Mér skilst að það hafi verið dálítið kalt í klefanum enda eru fangaklefar ekki upphitaðir hér frekar en önnur hús. Hreinlætisaðstaða í fangelsum hér er heldur ekki upp á marga fiska."

Vihjálmur segir að Íslendingar í Namibíu séu á bilinu 15 til 20. „Það voru hátt í 100 manns hér fyrr á árum en þeim hefur fækkað. Þróunarsamvinnustofnun var með meiri starfsemi hér og þá stunduðu íslensk fyrirtæki fiskveiðar í landinu." Vilhjálmur segir að þeir Íslendingar sem eftir eru í landinu séu því flestir fyrrverandi starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar og sjómenn sem ílengst hafa í landinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×