Íslenski boltinn

Grótta og Víðir í úrslitin

Elvar Geir Magnússon skrifar

Ljóst er að það verða Grótta og Víðir sem munu mætast í úrslitaleiknum um sigurinn í 3. deild karla. Bæði lið hafa þegar tryggt sér sæti í 2. deild á næstu leiktíð. Seinni leikir undanúrslitana fóru fram í kvöld.

Víðir vann Hamar frá Hveragerði 4-0 og samtals 7-0 úr tveimur leikjum. Grótta gerði markalaust jafntefli við Hvöt á Blönduósi en vann 3-1 sigur þegar liðin mættust á Seltjarnarnesinu.

Víðir, Grótta, Hamar og Hvöt eru öll komin upp í 2. deild en vegna fjölgunar fara fimm lið upp úr 3. deild í ár. Tvö lið munu mætast í úrslitaeinvígi um fimmta lausa sætið í 2. deild. Tindastóll komst í kvöld í það einvígi með samanlögðum sigri á Leikni Fáskrúðsfirði.

Á morgun kemur það í ljós hvaða liði Tindastóll mætir en þá leika Huginn og BÍ/Bolungarvík á Seyðisfirði. BÍ/Bolungarvík vann fyrri leikinn 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×