Innlent

Meiri umferðarteppur í borginni en nokkru sinni

Meiri umferðateppur eru nú í borginni kvölds og morgna en nokkru sinni fyrr. Allir ætla sér að mæta á hárréttum tíma eftir að skólarnir hófu störf að nýju eftir sumarfrí. Þetta virðist sprungið gatnakerfið ekki þola.

Bílalestin hefur legið einsog lakkrísreim nánast frá mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar upp í Árbæjarhverfi annars vegar og eftir Reykjanesbrautinni langleiðina upp í Breiðholt hins vegar.

Björg Helgadóttir hjá Reykjavíkurborg segir að meðalhraðinn hafi farið niður í 30 kílómetra á klukkustund í morgun á helstu æðum borgarinnar. Hann fór það niður klukkan átta í morgun að vegalengd sem venjulega er farin á 12 mínútum var farin á 45 mínútum.

Á sjöunda þúsund bílar óku niður Ártúnsbrekkuna milli klukkan 7 og 9 í morgun. Mesta álagið var þegar níu hundruð bílar sátu fastir í brekkunni.

Ökumenn voru mjög óþreyjufullir og margir komu of seint til vinnu í morgun og í skóla.

Augljóst er að miklu fleiri bílar voru á götunum í morgun en verið hefur í sumar. Mikið ber á því að foreldrar séu að aka börnum sínum í skólann og nemendur framhaldskólanna voru margir á fullri ferð í einkabílum þrátt fyrir að strætó bjóði nú ókeypis ferðir með vögnum sínum fyrir þennan hóp.

Bílastæðin voru gjörnýtt í morgun við framhalsskólana. Ljóst er að nemendur í MR eru afskaplega samvinnuþýðir í að samnýta það litla rými sem þeir hafa fyrir hverja bifreið. Þeir lögðu bílum sínum þannig að samvinna margra ökumanna varð að koma til að gera hverjum og einum ökumanni kleift að komast af bílastæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×