Innlent

Minni hækkun á bensínverði hjá Atlantsolíu en stóru olíufélögunum

Atlantsolía hækkar verð á bensíni í dag um eina krónu og fimmtíu aura en stóru olíufélögin hækkuðu verðið um tvær krónur fyrir helgi.

Orkan, sem er dótturfélag Skeljungs, mun að líkindum líka hækka verðið í dag en þar er verðið að jafnaði tíu aurum undir verðinu hjá Atlandsolíu. Að sögn talsmanns Atlantsolíu hefur heimsmarkaðsverðið hækkað úr 684 dollurum fyrir tonnið upp í 722 dollara á einni viku en til mótvægis hefur gengi krónunnar styrkst og því þurfti bensínhækkunin ekki að vera meiri miðað við óbreytta álagningu. Samkvæmt athugun fréttastofunnar hefur bensínið hækkað um tvær krónur íslenskar í Danmörku síðustu dagana og um tæpar tvær krónur í Svíþjóð.

Magnús Ásgeirsson hjá N1 segir að hækkunin hjá félaginu komi í framhaldi af hækkun á olíuverði á heimsmarkaði. Magnús segir að heimsmarkaðsverð hafi hækkað um 10 prósent frá því seinni partinn í ágúst þegar olíufélögin lækkuðu verð sitt um eina krónu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×