Innlent

Rak út á mitt Skorradalsvatn í fiskikari

Ellefu ára strákur  þykir hafa sloppið vel eftir að fiskikar sem hann var að leika sér að rak út á mitt Skorradalsvatn eftir hádegið í dag. Strákurinn var þar að leik ásamt fleiri krökkum og hafði hann rekið út mitt vatn áður en forráðamenn hans og lögregla náðu til hans í karinu, en þau höfðu tekið árabát í nágrenninu og róið á eftir dengsa.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi vantaði tappa í fiskikarið en strákurinn brást hárrétt við með því að halda sig þeim megin í karinu þar sem tappinn var ekki. Hann var nokkuð blautur, kaldur og skelkaður þegar honum var bjargað um borð í bátinn. Björgunarsveitarmenn komu einnig á vettvang og drógu þeir árabátinn í land með hraðbát þar sem nokkuð var farið að hvessa við vatnið.

Lögregla segir drenginn mjög heppinn en Skorradalsvatn er hátt í 50 metra djúpt á þeim stað þangað sem karið rak. Hann var ekki í björgunarvesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×