Innlent

Gamli barnaskólinn verður að fjármálamiðstöð

Gamli barnaskólinn á Akureyri gengur nú endurnýjun lífdaga því kvöld verður þar opnaðar með formelgum hætti höfuðstöðvar Saga Capital fjárfestingarbanka.

Um 30 manns starfa hjá bankanum sem er samkvæmt tilkynningu alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, var gestur í hádegisviðtalinu á Stöð 2 og fram kom í máli hans að hann liti á landið sem eitt atvinnusvæði og því skipti ekki máli hvort bankinn hefði höfuðstöðvar á Akureyri eða í Reykjavík.

Gamli Barnaskólinn á Akureyri á sér um hundrað ára sögu en var að hruni kominn um 1980. Þá var ákveðið að laga ytra byrði þess en ekki innviði. Það var hins vegar gert þegar Saga Capital tók það á leigu á síðasta ári. Var það nánast allt rifið að innan og byggt að nýju í samræmi við kröfur húsafriðunarnefndar. Húsnæðið er nú um 600 fermetrar að stærð.

Bankinn býður alla velkomna að skoað húsakynni sín á morgun, laugardag, á milli klukkan 12 og 16. Búið er að setja upp ljósmyndasýningu um sögu hússins og Hörður Geirsson hjá Minjasafninu á Akureyri mun leiðsegja gestum um svæðið klukkan 13 og 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×