Marisela Ortiz Rivera heldur erindi um morð 400 kvenna í Ciudad Juárez borg í Mexíkó í Háskóla Íslands á morgun. Marisela er hér á landi í boði Amnesty International og Cervantes setursins. Hún hefur síðustu sex ár barist ötullega gegn refisleysi vegna morðanna, en konurnar voru myrtar á hrottalegan hátt á síðustu árum.
Marisela hefur sætt hótunum og ofsóknum vegna baráttu sinnar og hafa Amnesty International biðlað til félaga sinna um að þrýsta á stjórnvöld fyrir hennar hönd.
Árni Múli Jónasson, formaður Amnesty International, mun einnig fjalla stuttlega um herferð samtakanna gegn ofbeldi á konum og hleypa hluta herferðarinnar af stokkunum. Þá verður sýnt stutt brot úr heimildarmynd um morðin.
Fundurinn verður haldinn klukkan 16 í Odda á morgun. Fundarstjóri verður Hólmfríður Garðarsdóttir og Angelica Cantú túlkar.