Fótbolti

Þvílíkt rusl

NordicPhotos/GettyImages

Frammistaða enska landsliðsins gegn Andorra í gær varð ekki til þess að styrkja stöðu Steve McClaren landsliðsþjálfara í augum fjölmiðla og stuðningsmanna enska landsliðsins. McClaren gekk af blaðamannafundi eftir leikinn í gær og stuðningsmenn enska liðsins sungu "þið eigið ekki skilið að klæðast búningnum" og "þvílíkt rusl" til að lýsa skoðunum sínum á lélegri spilamennsku liðsins.

Enska liðið vann leikinn 3-0 og komu öll mörkin í síðari hálfleik. Þeir sem séð hafa leiki með smáliði Andorra vita að liðið á að heita mörgum klössum fyrir neðan það enska að styrkleika, en þó virkuðu stjörnur enska liðsins ekki sérlega sannfærandi í gær frekar en í undanförnum leikjum.

"Ég hef engar áhyggjur af liðinu og það er það sem skiptir máli. Þið getið skrifað hvað sem þið viljið skrifa, en ég segi ekkert meira um leikinn," sagði Steve McClaren og stökk út af blaðamannfundi. Hann sagðist ánægður með að liðið næði sigri í leiknum eins og til stóð.

Breska blaðið The Sun var ekki að skafa af því frekar en fyrri daginn og vitnaði í Steve McClaren á blaðamannafundinum. Þar sagði þjálfarinn að blaðamenn mættu skrifa það sem þeir vildu eftir að Englendingar unnu liðið í 163. sæti FIFA-listans 3-0.

"Þú sagðir að við mættum skrifa það sem við vildum. Allt í góðu. Þetta var rusl," sagði í blaðinu. Þar stóð einnig að ensku stuðningsmennirnir hefðu kallað á að David Beckham fengi sæti í enska landsliðinu á ný og einhverjir ensku áhorfendanna sungu "þið eruð Skotar í dulargervi." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×