Fótbolti

Parker vill að Lampard verði fórnað

Steven Gerrard og Frank Lampard þykja of líkir leikmenn til að geta spilað í sama liði.
Steven Gerrard og Frank Lampard þykja of líkir leikmenn til að geta spilað í sama liði. MYND/Getty

Paul Parker, fyrrum landsliðsmaður Englendinga í knattspyrnu, telur að Steve McLaren eigi að fórna Frank Lampard úr byrjunarliði enska liðsins til þess að geta spilað Steven Gerrard við hlið Owen Hargreaves á miðri miðjunni. Parker segir augljóst að Lampard og Gerrard geti ekki verið báðir inni á vellinum á sama tíma.

"Ef menn voru ekki búnir að sjá það áður þá hljóta þeir að hafa áttað sig á því eftir leikinn gegn Ísraelum; það þarf að gera eitthvað við miðju enska liðsins. Gerrard og Lampard geta ekki spilað saman og það þarf að fórna öðrum þeirra. Fyrir mér er Lampard sá leikmaður," segir Parker, en hann skrifar reglulega pistla fyrir Eurosport íþróttastöðina.

"Lampard hefur ekki verið að gefa mikið af sér að undanförnu. Hann skorar mörk nánast að vild fyrir Chelsea en þegar hann þarf að taka af skarið fyrir England bregst hann. Hæfileikum Gerrard er á sama tíma sóað með því að spila honum á hægri vængnum. Og þetta snýst ekki bara um þá tvo. Afleiðingin er sú að Aaron Lennon þarf að spila vinstra megin á vellinum, en ekki þar sem hann kann best við sig - á hægri kantinum," segir Parker og á við að Gerrard og Lampard riðli öllu skipulagi.

"Mér finnst Gerrard færa enska liðinu miklu fleiri og betri eiginleika en Lampard og þess vegna á hann að vera í byrjunarliðinu í sinni uppáhaldsstöðu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×