Fótbolti

Fyrsta tap Brassa undir stjórn Dunga

Tvö mörk á lokamínútunum tryggðu að Luiz Scolari hefur enn ekki tapað æfingaleik á þjálfaraferlinum
Tvö mörk á lokamínútunum tryggðu að Luiz Scolari hefur enn ekki tapað æfingaleik á þjálfaraferlinum NordicPhotos/GettyImages

Brasilíumenn uppskáru sinn fyrsta ósigur í þjálfaratíð Dunga í gærkvöld þegar liðið lá 2-0 fyrir Portúgölum í vináttuleik á Emirates Stadium í Lundúnum. Varamaðurinn Simao Sambrosa og varnarmaðurinn Ricardo Carvalho frá Chelsea tryggðu Portúgölum sigurinn með tveimur mörkum á síðustu átta mínútum leiksins.

Brassarnir voru mikið sprækari í fyrri hálfleiknum og gerðu sig líklegri til að sigra, en lærisveinar Luiz Scolari nýttu færi sín vel í lokin og tryggðu þjálfara sínum þann ótrúlega árangur að vera enn taplausan í vináttuleik á ferlinum.

Scolari gerði lítið úr því að leggja landa sína að velli í æfingaleik, en sagði sigurinn gera mikið fyrir sjálfstraust Portúgala sem ætla sér stóra hluti á EM 2008, en hann gerði Cristiano Ronaldo að fyrirliða í leiknum í gær og sagði það hafa verið eina af hinstu óskum aðstoðarforseta portúgalska knattspyrnusambandsins sem lést á dögunum.

"Ég á ekki von á því að landar mínir erfi þetta við mig þó annað hefði líklega verið uppi á teningnum ef um alvöruleik hefði verið að ræða," sagði Scolari. "Það voru tvö leikin og skemmtileg lið sem mættust hér í kvöld og ég vona að við höfum skemmt Englendingunum í stúkunni vel," bætti hann við, en bæði Alex Ferguson og Arsene Wenger voru t.a.m. á meðal áhorfenda á Emirates í gær.

"Við vissum vel að Portúgalar yrðu erfiðir og hættulegir. Við hefðum átt að byggja þetta meira upp á kantspili, því það er svo hættulegt að keyra í gegn um miðjuna því þá áttu frekar á hættu að fá á þig skyndisóknir. Við verðum bara að læra af þessu tapi og ég tek ábyrgðina á því sem þjálfari liðsins," sagði Dunga, þjálfari Brassa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×