Fótbolti

Ákvörðun Beckham kom Ferguson ekki á óvart

David Beckham skilur vel við á Spáni
David Beckham skilur vel við á Spáni NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segist hafa séð það fyrir að fyrrum leikmaður hans David Beckham færi til Bandaríkjanna eftir að hann féll úr náðinni hjá Real Madrid. Félagar hans á Spáni segjast muni sakna hans þegar hann heldur vestur um haf.

"Ég sá það fyrir að Beckham færi til Bandaríkjanna eftir að halla tók undan fæti hjá Real. Ég veit líka að það var ekki freistandi fyrir hann að koma aftur til Englands, því þar er hann fyrst og fremst stuðningsmaður Manchester United eftir að hafa alist upp hjá félaginu og honum hefði eflaust fundist erfitt að spila með öðru liði hér. Allir toppleikmenn vilja spila og úr því að hann fékk ekki að spila hjá Real, kaus hann að fara til Ameríku," sagði Ferguson.

Forseti Real Madrid, Ramon Calderon, lýsir Beckham sem sannkölluðum herramanni sem hafi alltaf gert sitt besta fyrir félagið og telur að ákvörðunin nú hafi verið bæði leikmanninum og félaginu til góða.

Iker Casillas markvörður segist eiga eftir að sakna félaga síns þegar hann fer í sumar. "Það er súrt að hann sé að fara. Mér finnst ég heppinn að hafa fengið að kynnast honum, því hann er frábær persóna og fyrirmynd okkar allra," sagði Casillas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×