Fótbolti

Los Angeles Galaxy

Bandaríski landsliðsmaðurinn Landon Donovan var kosinn verðmætasti leikmaður LA Galaxy á síðasta tímabili
Bandaríski landsliðsmaðurinn Landon Donovan var kosinn verðmætasti leikmaður LA Galaxy á síðasta tímabili NordicPhotos/GettyImages

Í dag varð ljóst að enski knattspyrnumaðurinn David Beckham mun ganga í raðir Los Angeles Galaxy í amerísku atvinnumannadeildinni næsta sumar. Það er því ekki úr vegi að skoða aðeins sögu félagsins, sem er eitt tíu upprunalegra atvinnumannaliðanna í MLS deildinni.

Lið LA Galaxy er annað tveggja atvinnumannaliða í Los Angeles og spilar heimaleiki sína í Carson. Nafn liðsins vísar til frægra Hollywoodstjarnanna sem búa í borginni og spilar liðið í grænum og gulum búningum.

Bandaríska atvinnudeildin, MLS, var stofnuð árið 1996 og hefur lið LA Galaxy verið eitt sigursælasta liðið í stuttri sögu deildarinnar. Fimm sinnum hefur liðið leikið til úrslita um meistaratitilinn og sigraði það árið 2002 og 2005. Síðasta keppnistímabil er hinsvegar það lélegasta í sögu liðsins og komst það ekki í úrslitakeppnina það árið.

Ekkert lið í MLS fær til sín jafnmarga áhorfendur og LA Galaxy, en liðið hefur dregið til sín tæplega 22.000 áhorfendur að meðaltali á leik síðan deildarkeppnin hófst fyrir rúmum áratug. Þekktasti stuðningsmaður LA Galaxy ku vera skemmtikrafturinn Drew Carey sem íslenskir sjónvarpsáhorfendur eru að góðu kunnir. Stuðningsmannaklúbbar liðsins eru tveir og kalla sig Galaxians og LA Riot Squad. Lukkudýr liðsins er geimvera í frosklíki sem kallar sig Cozmo.

Það var strax í október á síðasta ári sem gamla landsliðshetjan Alexi Lalas sagðist hafa áhuga á að fá David Beckham til liðsins, en það þótti á sínum tíma ansi mikil bjartsýni. Enginn hlær þó í dag og er fimm ára samningurinn sem David Beckham skrifaði undir í dag metinn á 250 milljónir dollara, eða um 18 milljarða íslenskra króna.

David Beckham er langstærsta stjarnan sem skrifað hefur undir samning í MLS deildinni - en hann er þó ekki stærsta nafnið til að spila í Bandaríkjunum, því Brasilíumaðurinn Pele lék þar með New York Cosmos fyrir nokkrum áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×