Innlent

Hollendingar sigldu stolinni skútu til Hornafjarðar

Breki Logason skrifar
Skútan liggur við landfestar í Hornafjarðarhöfn.
Skútan liggur við landfestar í Hornafjarðarhöfn.

„Um er að ræða þjófnað á skútu frá Þýskalandi sem siglt var hingað til lands," segir lögreglan á Hornafirði en skúta hefur verið kyrrsett í Hornafjarðarhöfn.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar er ekki vitað hvort hugsanlegir kaupendur séu hér á landi en tollgæslan er að skoða málið. Það er Ríkislögreglustjóri í samstarfi við Interpol sem eru með málið að sögn lögreglunnar á Hornafirði.

Það voru Hollendingar sem sigldu skútunni hingað og eru þeir vanir ferjusiglarar að sögn lögreglunnar. Ekki er uppi grunur að fíkniefni séu um borð en skútan hefur verið kyrrsett og er því ekki að fara neitt.

Skútan er nokkuð stór og skaut lögreglan á að hún væri um 12-13 metrar að lengd og fjórir metrar á breidd. Athygli vekur að hún er af tegundinni Bavaria, sem er sama gerð og skútan sem notuð var í smyglskútumálinu á Fáskrúðsfirði á dögunum.

Smári Björgvinsson hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra kannaðist ekkert við málið þegar Vísir hafði við hann samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×