Meirihluti jarðarbúa telur hlýnun jarðar af mannavöldum og nauðsynlegt að ríki heims grípi til aðgerða strax. Utanríkisráðherra Íslands segir að lausn verði að finna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna - stórveldi megi ekki vera einráð í þeim efnum.
Breska ríkisútvarpið, BBC, lét gera umfangsmikla könnun um viðhorf jarðarbúa til umhverfismála. Alls tóku 22 þúsund manns í 21 landi þátt í henni. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telja um 65% aðspurðra að grípa verði strax til stórtækra aðgerða til að bregðast við loftlagsbreytingum. Þá telja um 80% að breytingarnar séu fyrst og fremst af mannanna völdum. Flestir kenna iðnaði og samgöngum um aukna mengun í heiminum.
Að mati þeirra sem stóðu að könnuninni benda niðurstöður hennar til mikillar afstöðubreytingar meðal fólks í heiminum gagnvart náttúruvernd. Yfir 70% aðspurðra telja nauðsynlegt að ríki heims geri með sér samkomulag um samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ennfremur vilja flestir að samkomulagið nái einnig til ríkja þriðja heimsins sem fái í staðinn fjárhagsaðstoð frá auðugri ríkjum.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, boðaði í gær til fundar um loftslagsmál. Hann sóttu fulltrúar hundrað og fimmtíu ríkja - þar á meðal Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sem ávarpaði fundinn. Hún lagði áherslu á að lausn yrði að finna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Stór og voldug ríki heims mættu ekki ein forgansraða í þeim efnum. Málið snerti alla heimsbyggðina.