Lífið

Afar krefjandi ævintýri

Emil Grímsson, Hjalti Hjaltason og Haraldur Pétursson aðstoðuðu sjónvarpsstjörnurnar úr Top Gear við að keyra á segulpólinn.
Emil Grímsson, Hjalti Hjaltason og Haraldur Pétursson aðstoðuðu sjónvarpsstjörnurnar úr Top Gear við að keyra á segulpólinn.

Þrír starfsmenn Arctic Truck tókust á hendur svaðilför ásamt sjónvarpsmönnunum frægu úr bílaþættinum Top Gear, sem sýndur er á BBC við miklar vinsældir. Þeir Emil Grímsson, framkvæmdastjóri Arctic Trucks, Hjalti Hjaltason og Haraldur Pétursson lögðu sjónvarpsmönnunum lið við að komast á svokallaðan segulpól á norðurheimsskautinu. „Þetta var heilmikið ævintýri," sagði Emil í samtali við Fréttablaðið, en hann hafði þá nýlokið við að horfa á þáttinn, sem var sýndur á BBC síðastliðinn miðvikudag.

Í Top Gear takast þáttastjórnendur iðulega á við ýmis konar áskoranir. Að þessu sinni kepptu þeir Jeremy Clarkson og James May, sem óku Toyota Hilux-bíl frá Arctic Trucks, við Richard Hammond, sem ók hundasleða, um hverjir yrðu fyrstir til að komast á segulpólinn. „Það hefur verið staðið fyrir gönguferðum frá Resolute í Norður-Kanada á segulpólinn í mörg ár, en það hefur enginn farið á bíl svo við vitum til. Innfæddum í Resolute fannst þetta fáránleg hugmynd," sagði Emil og hló við. Top Gear hafði samband við Toyota, sem bað svo Arctic Trucks að útvega farartæki í svaðilförina. „Við höfum þvælst um Grænland þvert og endilangt, svo við höfum dálitla reynslu af þessu," sagði Emil.

Svaðilförin átti sér stað í lok apríl og byrjun maí, en henni hafði þá verið frestað um mánuð. „Veðurfræðingurinn í Resolute sagði að við værum orðnir of seinir, að ísinn væri orðinn svo þunnur að við gætum dottið í gegn. Þá varð fólk svolítið stressað," sagði Emil yfirvegaður. Upphaflega átti hann ekki að vera með í för á pólinn, en vegna óróans út af þykkt íssins, og sökum þess að hann var einn af fáum sem gat keyrt í snjónum, varð úr að hann fylgdi ferðalöngum. „Ég samþykkti að lokum að fara á undan á sleða, með bor til að mæla þykkt íssins. Svona til að friða mannskapinn," útskýrði Emil.

Þeir Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond voru miklir atvinnumenn, að sögn Emils, og tvímælalaust jafn skemmtilegir og í þáttunum.

Hann sér ekki eftir því, þó að ferðalagið hafi tekið sinn toll. „Þátturinn sýnir ekki alveg hversu hrikalega þreyttir menn voru orðnir. Þetta voru mikil átök, og fólk vantaði hreinlega svefn. Það fóru allt að fjórir tímar, bæði kvölds og morgna, í að koma upp búðum og bræða upp vatn til að drekka og elda mat. Það er bara heill vinnudagur. Svo þarf að mynda og keyra inn á milli," sagði hann. Ferðlaginu fylgdu aðrir kvillar, því Emil segist hafa gleymt öllu öðru á meðan á því stóð. „Eftir viku fór það svo aðeins að rifjast upp fyrir mér hvaða ábyrgð maður hefði svona í lífinu," sagði hann og hló við.

Emil segir samfylgdina við Top Gear-menn hafa verið afar ánægjulega. „Þeir komu mér eiginlega á óvart, þeir voru allir svo miklir atvinnumenn. Þeir voru líka ótrúlega duglegir að fara út að mynda, sem er nú ekki alltaf mjög freistandi í þessum kulda," sagði Emil og hló. „Það var mjög gaman að vinna með þeim, þeir eru tvímælalaust alveg jafn skemmtilegir og þeir eru í þáttunum," bætti hann við.

Ekki er ljóst hvenær umræddur Top Gear-þáttur verður sýndur hér á landi, en Skjár einn hefur haft þáttaraðirnar til sýningar. „Við höfum hug á að vera með einhvers konar frumsýningu á þættinum í samvinnu við Skjá einn og Toyota hérna heima. En það er ekki komin nein dagsetning á það ennþá," sagði Emil, sæll með svaðilförina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×