Innlent

Segir Samhjálp hafa bjargað lífi sínu

Fyrrverandi fíkill sem var á götunni í um tvö ár segir kaffistofu Samhjálpar hafa bjargað lífi sínu. Fái Samhjálp ekki varanlegt húsnæði aukist líkurnar á innbrotum í miðbænum og útigangsmenn verði úti.

Kaffistofu Samhjálpar á Hverfisgötu hefur verið lokað um óákveðinn tíma vegna byggingaframkvæmda. Þangað hafa heimilislausir og öryrkjar leitað skjóls undanfarin ár og fengið að borða. Að meðaltali eru hátt í sjötíu heimsóknir á kaffistofuna á dag. Samhjálp hefur leitað að húsnæði í miðbænum um all nokkurt skeið en án árangurs.

Barbara Þóra Kjartansdóttir er þrjátíu og sjö ára gömul og hefur verið í neyslu í rúman áratug. Margsinnis fór hún í meðferð en ekkert gekk fyrr en fyrir sjö árum þegar hún snéri blaðinu við með hjálp trúarinnar og hefur verið edrú síðan. Hún segist hafa verið langt leidd og á götunni margsinnis, lengst í tvö ár í senn.

Barbara segir að ef heimilislausir hafi ekki samastað líkt og kaffistofuna eigi innbrotum eftir að fjölga og útigangsmenn verði úti. Heiðar Guðnason forstöðumaður Samhjálpar segir í samtali við fréttastofu að illa gangi að finna húsnæði í miðborginni þar sem margir hafi neikvæða afstöðu í garð heimilislausra.

Þess ber að geta að Samhjálp býður upp á frítt kaffi og bakkelsi í gistiskýlinu í Þingholtsstræti frá klukkan tólf til tvö á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×