Innlent

ÍE skoðar erfðaupplýsingar út frá áhættu á sjúkdómum

MYND/Hari

Íslensk erfðagreining hyggst frá og með deginum í dag bjóða fólki upp á að skoða erfðaupplýsingar þess meðal annars með tilliti til hættu á tilteknum sjúkdómum. Þjónustna mun kosta 985 dollara eða um 60 þúsund krónur.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að þjónustan verði í boði á Netinu á vefsíðunni www.decodeme.com. Þjónustan er tvíþætt. Annars vegar verður boðið upp á að vinna upplýsingar úr erfðaefni viðskiptavina og hins vegar að setja þær upplýsingar í samhengi við þá þekkingu sem er til staðar í heiminum í dag.

Meðal þess sem deCode greinir er uppruni fólks og hvernig erfðamengi einstaklinga lítur út með tilliti til þeirra erfðaþátta sem vitað er að auka eða minnka líkur á algengum sjúkdómum eins og hjartaáfalli, sykursýki og fótaóeirð.

Bent er á í tilkynningunni að deCode sé fyrsta félagið sem bjóði upp á þessa þjónustu en með þessu sé verið að nýta þá sérþekkingu sem fyrirtækið hafi byggt upp á síðasta áratugnum til að færa erfðafræði nær almenningi.

Sem fyrr segir mun þjónustan kosta 985 dollara eða um 60 þúsund krónur. Munu fyrstu viðskiptavinirnir fá tækifæri til þess að móta þjónustuna þar sem hún mun verða löguð að þörfum þeirra á næstu vikum, eftir því sem segir í tilkynningu deCode.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×