Benazir Bhúttó, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, segir forna fjendur fjölskyldu sinnar hafa reynt að ráða sig af dögum í gærkvöldi. Minnst 130 manns týndu lífi í tveimur sprengingum nærri bílalest Bhúttó í Karachi.
Benazir Bhúttó var fagnað við heimkomuna í gær eftir átta ára sjálfskipaða útlegð. Fjölmennt var nærri bílaest hennar í Karachi í gærkvöldi þegar tvær spreningar urðu.
Minnst 130 lágu í valnum og fjölmargir særðir. Bhúttó sjálfa sakaði ekki. Sprengjuárásin ein sú mannskæðasta í sögu landsins. Vitað var að líf forsætisráðherrans fyrrverandi væri í hættu enda mörg samtök herskárra múslima hótað að myrða hana eftir ummæli um stuðning við stríðið gegn hryðjuverkum. Engir hafa lýst ódæðinu á hendur sér en lögreglu grunar að einn maður hafi verið að verki - fyrst hafi hann hent handsprengju að bílalestinni og síðan sprengt sig í loft upp.
Bhúttó segist tilræðismennina hafa auðsýnt heigulsskap. Slík árás hefði ekki verið gerð fyrr gegn stjórnmálaleiðtoga í Pakistan. Enginn sannur múslimi gæti hafa staðið að baki ódæðinu því það stríddi gegn trúnni að myrða konur og saklaust fólk.
Bhúttó sjálf segist sannfærð um að stuðningmenn Mohammeds Zia-ul-Haq, fyrrverandi einræðisherra Pakistans, hafi verið að verki. Herforingjastjórn hans var við völd í níu ár - eða þar til herforinginn fórst í flugslysi 1988. Zia-ul-Haq bolaði föður Bhútto, Zulfikar Ali Bhúttó, forsætisráðherra, frá völdum 1977 og lét hengja hann tveimur árum síðar.
Ljóst er að spennan á eftir að magnast í Pakistan næstu misserin - en kosið verður til þings í janúar. Bhúttó sækist þá eftir forsætisráðherraembættinu.