Innlent

Þarf að taka til í skrám

„Þessi mikli fjöldi hlýtur að skýrast af því að skrár þeirra flokka sem eiga sér langa prófkjörshefð eru orðnar mjög bólgnar og það þarf að taka til í þeim," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingar­innar - græns framboðs, um úttekt Fréttablaðsins á flokkskrám stjórnmálaflokkanna. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru rúmlega 85 þúsund Íslendingar skráðir í stjórnmálaflokk.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tekur í sama streng og Steingrímur. Hann segir að vel hafi verið tekið til í flokksskrá Frjálslyndra fyrir landsfund og því séu tölur um flokksmenn raunsannar.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þessi mikli fjöldi flokksbundinna hljóti að skýrast af almennum stjórnmálaáhuga Íslendinga.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir hins vegar að frekar hafi dregið úr flokkshollustunni en hitt „Það geta þó verið ákveðin meðmæli með flokkunum hversu margir vilja vera flokksbundnir," segir Ágúst.

í Framsóknarflokkinn eru skráðir 12.188 félagsmenn. Samt sem áður mælist flokkurinn aðeins með 9,4 prósenta fylgi í nýjustu skoðanakönnum Fréttablaðins. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir að stærsti hluti flokksmanna sé virkur í flokknum. „Í mínu prófkjöri varð ég var við að langstærsti hluti þeirra sem voru skráðir í flokkinn mætti á kjörstað," segir Guðni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×