Skógareldar geisa nú víða í Bandaríkjunum. Miklir hitar og þurrkar hafa verið undanfarna daga. Hitinn hefur á sumum stöðum haldist yfir 40 stigum í næstum tvær vikur. Þá var úrkomumagn síðastliðinn vetur minna en í meðalári og því eru kjöraðstæður fyrir skógarelda.
Í Utah fylki í Bandaríkjunum brann til að mynda rúmlega eitt þúsund ferkílómetra svæði. Þá geisa eldar í fylkjunum Kaliforníu, Kólóradó og Oregon. Talið er að eldingar hafi kveikt marga eldanna.