Erlent

Brynvagnar stefna að landamærunum

„Píslarvottar deyja aldrei. Föðurlandið er óskiptanlegt,“ stendur á ennisborða þessarar konu sem hrópar slagorð á mótmælafundi þjóðernissinna í Istanbúl í gær í tilefni af árásum síðustu daga á tyrkneska hermenn.fréttablaðið/ap
„Píslarvottar deyja aldrei. Föðurlandið er óskiptanlegt,“ stendur á ennisborða þessarar konu sem hrópar slagorð á mótmælafundi þjóðernissinna í Istanbúl í gær í tilefni af árásum síðustu daga á tyrkneska hermenn.fréttablaðið/ap
Tugir tyrkneskra brynvagna stefndu í gær að landamærunum að Írak. Á fjölmennum mótmælafundum í borgum landsins var þess krafist að tekið væri af hörku á uppreisnarmönnum Kúrda í kjölfar þess að í fyrradag féllu tólf hermenn í fyrirsát. Árásin hefur aukið enn líkurnar á að Tyrkir sendi herlið inn fyrir landamæri Íraks til að elta uppi skæruliða þar sem þeir annars eru að mestu í skjóli fyrir refsivendi tyrkneska hersins.

Bandaríkjastjórn beitir sér nú af afli til að telja Tyrkja ofan af því að ráðast inn í Írak. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hringdi í tyrkneska forsætisráðherrann Recep Tayyip Erdogan og leiðtoga heimastjórnar Kúrdahéraðanna í Norður-Írak, Massoud Barzani, á sunnudag til að knýja á um að varkárni yrði höfð að leiðarljósi í baráttunni gegn hinni bönnuðu hreyfingu aðskilnaðarsinnaðra Kúrda í Tyrklandi, hinum svonefnda Verkamannaflokki Kúrdistans, PKK. Hann hefur bækistöðvar handan landamæranna á yfirráðasvæði íraskra Kúrda.

„Við teljum ekki að einhliða hernaðar­aðgerðir yfir landamæri séu besta leiðin til að fást við þetta vandamál,“ sagði Sean McCormack, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Washington.

Ali Babacan, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í heimsókn í Kúvæt í gær að Tyrklandsstjórn myndi leita pólitískrar lausnar á vandanum áður en hún brygði á það ráð að senda her inn í Írak á eftir skæruliðum.

„En þegar allt kemur til alls, náist engin niðurstaða, höfum við aðrar aðferðir sem við kunnum að neyðast til að beita,“ tjáði Babacan fréttamönnum. - aa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×