Reynt verður að hífa TF Sif, þyrlu landhelgisgæslunnar, upp úr sjónum í kvöld. Þyrlan liggur á hvolfi úti af Hvaleyrarholti milli Straumsvíkur og Hafnarfjarðar en kafarar eru nú að losa spaðana af þyrlunni til þess hægt verði að snúa henni við.
Fimm kafarar hafa metið aðstæður á slysstað og hvernig best sé að hífa þyrluna upp. Til þess verður notast við krana á vinnuprammanum Fjölva.
Fram kom í máli Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í kvöld að þyrlan væri væntanlega ónýt. Hefur hann nú þegar gert ráðstafanir til þess að fá nýja þyrlu til landins.
TF Sif féll í sjóinn mitt á milli Straumsvíkur og Hafnarfjarðarhafnar um klukkan 18.50 í kvöld. Fjórir voru í áhöfn en þeir sluppu allir ómeiddir.