Innlent

Vilhjálmur segir Ólaf F. snúa aftur um áramót

Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon

Ólafur F. Magnússon, oddviti F-listans í borgarstjórn Reykjavíkur snýr aftur á svið borgarmálanna um áramót. Þetta sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, í viðtali á Útvarpi Sögu í dag. Ólafur hefur verið í veikindaleyfi í borgarstjórn undanfarið en þegar nýr meirihluti var myndaður í borginni á dögunum sagði hann viðtali við fréttamann Stöðvar 2 að hann ætlaði sér að snúa aftur eins fljótt og auðið væri. Margrét Sverrisdóttir hefur setið í oddvitasætinu í fjarveru Ólafs og gegnir hún embætti forseta borgarstjórnar í nýjum meirihluta.

Í þættinum barst talið að Reykjavíkurflugvelli og minnti Vilhjálmur á að F- listinn hefði beinlínis náð sínum manni inn með því að vera eini flokkurinn sem algerlega var á móti flutningi flugvallarins. Vilhjálmur sagði það verða fróðlegt að sjá hvernig flokkarnir sem standa að nýja meirihlutanum ætli að leysa flugvallarmálið sérstakleg í ljósi þess að Ólafur ætli sér að snúa aftur um áramót.

Í viðtali við Vísi nú síðdegis vildi Ólafur ekkert tjá sig um mögulega endurkomu sína inn á pólítíska sviðið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×