„Offita er að verða eitt stærsta heilbrigðisvandamál á næstu árum, " segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Hún hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir því að þeir sem eru á auglýsingamarkaði beini ekki auglýsingum um óholla matvöru að börnum. Ásta Ragnheiður var í hádegisviðtalinu hjá Lillý Valgerði Pétursdóttur á Stöð 2 í dag.
„Ég er að vissu leyti að tala um að feta sömu spor og Bretar hafa gert. Þeir hafa til dæmis bannað auglýsingar á óhollri matvöru þangað til klukkan níu á kvöldin," segir Ásta Ragnheiður. Ásta Ragnheiður segir að ábyrgð foreldra sé mest. Þau beri ábyrgð á velferð barna sinna, en auglýsendur og samfélagið allt beri einnig ábyrgð á velferð barna.
Ásta Ragnheiður hefur áður lagt fram sambærileg þingmál en þau hafa ekki hlotið afgreiðslu. Hún telur að skilningur á málinu hafi aukist og er vongóð um að það nái í gegn á þessu þingi.
Offita að verða stórt heilbrigðisvandamál
