Innlent

Forsetinn tók Lexus fram yfir Benz

Mercedes Benz S500 L
Mercedes Benz S500 L

Þeir sem hafa áhuga á Mercedes Benz S500 L, með statífum fyrir flaggstangir á stuðaranum, geta skellt sér í bílaumboðið Öskju og ekið á honum heim í dag. Bíllinn var fluttur inn með það í huga að selja hann forsetaembættinu en af því varð ekki því forsetinn festi kaup á Lexus LS600 H tvinnbíl á dögunum, fyrstur evrópskra þjóðhöfðingja.

„Þetta er bara lagerbíll hjá okkur," segir sölumaður Öskju í samtali við Vísi. „Við buðum forsetaembættinu hann til sölu en hann leitaði annað," segir hann. Bíllinn kostar 15,5 milljónir en grunnverð hans er 13,9 milljónir. Á meðal aukabúnaðar í þessum tiltekna bíl má nefna leðurklædd sæti, sóllúgu og flaggstangastatífin fyrrnefndu.

Því hefur heyrst fleygt að forsetaembættið hafi í raun pantað bílinn til landsins. Þar á bæ hafi mönnum hins vegar snúist hugur og ákveðið að kaupa Lexusinn með tvinnvélinni sem er mun umhverfisvænni bíll en Benzinn sem er með V8, 388 hestafla vél. Þessu neitar forsetaembættið hins vegar, margir bílar hafi verið skoðaðir, þar á meðal Benz, en að Lexusinn hafi orðið fyrir valinu. Sölumaður Öskju staðfestir þetta einnig. Bíllinn hafi ekki verið pantaður af embættinu heldur hafi umboðið flutt hann inn með það í huga að vekja áhuga á bílnum á meðal mögulegra kaupenda, þar á meðal forsetaembættinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×