Innlent

Formaður Félags landeigenda við Jökulsá mun kæra úrskurðinn

Jónas Guðmundsson formaður Félags landeigenda við Jökulsá á Dal segir að ekki sé viðunandi að hlýta úrskurði matsnefndarinnar um bætur fyrir vatnsréttindin. Hann muni því kæra úrskurðinn og hann á von á að fleiri muni gera slíkt hið sama. "Það var mjög þungt hljóð í mönnum þegar niðurstaða nefndarinnar var kynnt," segir Jónas.

Jónas segir að Félag landeigenda muni halda fund um málið þann 5. september n.k. með lögmönnum sínum og fara þar yfir stöðuna en þeir hafa sex vikna frest til að kæra. "Það var hinsvegar mjög jákvætt fyrir okkur að fá þetta sérálit sem kom fram," segir Jónas.

Í séráliti því sem Egill B. Hreinsson prófessor við Háskóla Íslands skilaði segir m.a. að hann sé ósammála þeirri aðferð sem meirihluti nefndarinnar notaði til að meta bæturnar til landeigenda. Og þar með niðurstöðu nefndarinnar um þá heildarupphæð sem fundin var, það er 1,6 milljarður króna.

"Ég tel að sú grundvallarbreyting sem átti sér stað við setningu raforkulaga 2003, þar sem markaður er innleiddur í stað opinbers einkasöluumhverfis, leiði óhjákvæmilega til gjörbreyttra forsendna og aðferða við mat á verðmæti vatnsréttinda miðað við fyrri forsendur." Og Egill bætir því að þetta viðhorf leiði að hans mati til mun hærri bóta en þeirra sem meirihlutinn komst að niðurstöðu um.

Hvað hærri bætur varðar kom fram á Vísi fyrr í vikunni að Egill taldi að bæturnar ættu að nema a.m.k. 10 milljörðum kr. Hilmar Gunnlaugsson annar lögmanna landeigenda við Jökulsá á Dal bendir á í samtali við Vísi að þessi tala sé lágmarkið í útreikningum Egils. Samkvæmt töflu í sérálitinu gætu bæturnar numið allt að 65 milljörðum króna og að meðaltal útreikinga Egils sé upphæð upp á 35 milljarða króna. Þessar síðasttöldu upphæðir séu á svipuðum nótum og landeigendur hefðu farið fram á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×