Þrír karlmenn eru í haldi lögreglunnar í Reykjavík, sem rannsakar tilraun þeirra til að smygla nálægt fimm hundruð grömmum af kókaíni til landsins.
Mennirnir komu til landsins fyrir síðustu helgi með flugi frá Kaupmannahöfn. Þangað höfðu þeir komið frá Hollandi, þar sem þeir fengu efnin. Þeir voru handteknir við komuna til landsins og fundust þá fíkniefnin í fórum þeirra. Þeir voru færðir til yfirheyrslu og í framhaldi af því úrskurðaðir í gæsluvarðhald til næsta þriðjudags.
Mennirnir eru milli þrítugs og fimmtugs. Þeir hafa áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnabrota, en þau hafa ekki verið stórvægileg, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.
Yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík segir málið vera til rannsóknar.