Innlent

Engar breytingar á heimsókn sendiherra þrátt fyrir árásir

MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra segir að engar breytingar verði á heimsókn sendiherra Ísraels hingað til lands í næstu viku. Stjórnvöld muni þó koma því á framfæri að þau fordæmi árásirnar á óbreytta borgara í bænum Beit Hanoun á Gaza sem kostuðu átján, þar af tíu börn, lífið.

Valgerður Sverrisdóttir segir ekki rétt á þessu stigi málsins að slíta samskiptum við Ísraelsmenn og bendir á að Íslendingar fordæmi þessar árásir og ætli að mótmæla formlega. Á það beri einig að líta að Ísraelsmenn hafi beðist afsökunar á árásunum þótt deila megi um orðalag afsökunarbeiðninnar.

Valgerður segir að hún ætli ekki að réttlæta orðalagið sem Ísraelar hafi notað en hún telji hins vegar að miðað við að sendiherra landsins sé að koma til Íslands þá hafi verið ákveðið áður en árásirnar áttu sér stað að funda.

Valgerður var spurð um ummæli Steingríms J Sigfússon, formanns Vinstri - grænna, um að rétt væri að íhuga að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna árása á óbreytta borgara. Hún segist ekki vilja svara því á þessu stigi heldur fyrst eiga fund með sendiherra Ísraels til þess að átta sig betur á hvernig Ísraelsmenn taki á málinu.

 

Geir H. Haarde forsætisráðherra telur hins vegar ekki koma til greina að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Hann segir að ríkisstjórnin fordæmi það sem gerst hafi en menn vilji ekki missa það tækifæri sem þeir hafi í gegnum stjórnmálasambandið til þess að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×