Innlent

Skora á Sturlu að beita sér fyrir því að hvalveiðar verði stöðvaðar

MYND/Valgarður

Hvalaskoðunarsamtök Íslands skora á Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra og ráðherra ferðamála, að hlutast til um að hvalveiðar verði stöðvaðar og málið tekið upp að nýju innan ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum í dag.

Þar fordæma samtökin ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila veiðarnar og fara þau fram á að málið verði skoðað út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar en ekki út frá ímynduðum hagsmunum útgerðarfyrirtækja eins og það er orðað.

Benda þau á að sjávarútvegsráðherra hafi ekki haft samráð við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu líkt og eðlilegt hefði verið áður en ákvörðunin var tekin og áhyggjuefni sé að samgönguráðherra hafi ekkert aðhafst til að verja hagsmuni ferðaþjónustunnar annað en að leggja til enn meiri fjárútlát til að kynna og réttlæta hvalveiðistefnu sjávarútvegsráðherra.

Þá draga Hvalaskoðunarsamtök Íslands í efa að 44.000 hrefnur sé að finna hér við land og segja að á undanförnum þremur árum hafi æ færri hrefnur sést á sumum hvalaskoðunarsvæðum og gæfum dýrum hafi fækkað. Hrefnuveiðarnar hafi því þegar haft skaðleg áhrif á hvalaskoðun og dregið úr upplifun ferðamanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×