Innlent

Fylgjast sérstaklega með bílbeltanotkun

MYND/Pjetur

Algengustu brotin í umferðinni í Reykjavík í gær voru að ökumenn eða farþegar notuðu ekki öryggisbelti. Lögreglumenn á Suðvesturlandi munu næstu daga skoða sérstaklega hvort þau eru notuð en sektir liggja við að nota þau ekki.

Tuttugu voru sektaðir fyrir slíka vanrækslu í Reykjavík í gær og þónokkrir í Árnessýslu. Undanfarna daga hafa borist fréttir af því að notkun bílbelta hafi komið í veg fyrir stórslys þegar bílar hafa verið að velta, meðal annars vegna hálku en þrátt fyrir það viðast sumir ökumenn sýna beltunum hirðuleysi.

Fimm þúsund króna sekt liggur við því ef ökumaður er stöðvaður án beltis og fær hann auk þess punkt í ökuferilsskýrslu sína. Sé farþegi án beltis er hann sektaður ef hann er orðinn 16 ára og þar með sakhæfur. Ef farþegar eru hins vegar yngri ber ökumaður ábyrgðina og fær sektina sjálfur.

Samhliða því að líta sérstaklega eftir bílbeltanotkun ætlar lögreglan að fylgjast með farsímanotkun ökumanna en fimm þúsund króna sekt liggur við því að tala í farsíma undir stýri ef síminn er ekki handfrjáls, sem þýðir að ökumaðurinn sé að tala í venjulegan farsíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×