Alþingishúsið verður baðað bleiku ljósi í kvöld og næstu daga sem táknrænn stuðningur Alþingis og alþingismanna við baráttuna gegn brjóstakrabbameini.
Í tilkynningu segir að Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, hafi ákveðið þetta í samráði við forustu Krabbameinsfélag Íslands. Með þessu slæst Alþingi í hóp margra þekktra stofnana víða um veröld í sérstöku alþjóðlegu árveknisátaki gegn brjóstakrabbameini.
Kveikt verður á ljósunum kl. 20 í kvöld, þriðjudaginn 4. október og verða forseti Alþingis og varaforsetar viðstaddir af því tilefni.