Innlent

Sérsveit Ríkislögreglustjóra kölluð út á Akureyri

MYND/KK

Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð út á Akureyri um fimmleytið í nótt vegna manns í heimahúsi í miðbænum sem hugðist taka sitt eigið líf með skotvopni. Lögregla fékk tilkynningu um málið um hálffimm og var þá allt tiltækt lið sent á vettvang og svæðið í kringum húsið lokað af, eins og alltaf er gert í tilvikum sem þessum.

Maðurinn reyndist hins vegar ekki vera með skotvopn og leystist málið farsællega um svipað leyti og sérsveitin kom á vettvang. Að sögn lögreglu var maðurinn ölvaður. Hann var færður í fangageymslur og verður yfirheyrður síðar í dag. Þetta atvik varð til þess að lögregla gat ekki sinnt útkalli vegna elds í þremur gámum í miðbæ Akureyrar.

Fyrst barst tilkynningu um eld í stálgámi við veitingastaðin Kaffi Amor og slökkti slökkvilið hann. Skömmu síðar var kveikt í gámi fyrir aftan Kaffi Akureyri en starfsfólk þar réð niðurlögum hans. Loks brann plastgámur til kaldra kola við matsölustaðinn Pengs. Lögregla veit ekki hver var þarna á ferð en segir margt benda til þess að sami eða sömu aðilar hafi kveikt alla eldana þar sem þeir voru allir innan hundrað metra radíuss hver frá öðrum og þá voru þeir allir kveiktir á milli klukkan fimm og hálfsex.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×