Innlent

Flokksbræður deila um greiðslur

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa svikist um að greiða til Strætós í samræmi við launahækkanir vegna nýs kjarasamnings. Flokksbróðir hans, bæjarstjórinn í Hafnarfirði, segir þetta með öllu rangt. Ráðist verður í stjórnsýsluúttekt á félaginu.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir fjárskort Strætós bs. ekki til kominn vegna fækkunar farþega eins og haldið hafi verið fram. Hann segir vandann til kominn vegna þess að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafi svikist um greiðslur til fyrirtækisins. Dagur segir sveitarfélögin ekki hafa greitt til Strætós í samræmi við launahækkanir vegna samninga við vagnstjóra sem gengið var frá fyrr á þessu ári.

Þessum orðum Dags B. Eggertssonar vísar flokksbróðir hans Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirið, alfarið til föðurhúsanna. Hann segir Hafnarfjarðarbæ hafa staðið skil á öllum þeim framlögum til Strætós sem samið hafi verið um.

Þær upplýsingar fengust frá Strætó bs. að öll sveitarfélögin sem eiga aðild að byggðasamlaginu hafi greitt það fé sem þau skuldbundu sig til að greiða þegar gengið var frá fjárhagsáætlun Strætós. Þegar sú fjárhagsáætlun var samþykkt var ekki tekið tillit til launahækkana og engar skuldbindingar um greiðslur vegna þeirra.

Tilkynnt var í dag að samið hafi verið við Deloitte og Touche um stjórnsýsluúttekt á Strætó bs. Þar skal farið yfir hversu vel hefur tekist til við rekstur fyrirtækisins. NFS greindi frá því í gær að ekki hefði verið leitað skipulega til almennings til að fá tillögur að þjónustu Strætós þegar ráðist var í umfangsmestu breytingar á leiðakerfi sem ráðist hefur verið í til þessa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×