Fótbolti

Hinir Bláu, ódauðlegu

Ég er ennþá að jafna mig eftir undanúrslitaleikinn í gær, Hvítir á móti Bláum, og ég held að úrslit hans séu í meira lagi söguleg á HM mælikvarðann.

Að leikslokum þá má sjá að ítalska liðið vann á sjónarmun, allan leikinn voru þeir frábærlega öruggir, aðeins eitt opið færi sem Þjóðverjar fengu, reyndar jafn mikið og þeir fengu á móti Argentínu en Klose kláraði það. Ítalarnir léku eftir stórkostlegu leikskipulagi, alla jafna fimm í vörn, voru tveir eða þrír um hvern sóknarmann Þjóðverja oftast nær og miðjan miklu kvikari en hjá heimamönnum. Það átti hinsvegar enginn von á þessum tveimur lokamínútum þeirra, þannig að þótt liðin hafi verið nokkuð jöfn allan leikinn, þá gerðu þessi tvö mörk útslagið. Þetta minnti mig á höggorm, eða sporðdreka, sem bítur frá sér skyndilega, þegar enginn á sér ills von.

Það voru allir farnir að reikna út vítaspyrnukeppni, þar sem Þjóðverjar voru á heimavelli í orðsins fyllstu merkingu, og þá kom það, mark. Fyrirvaralaust. Frábær afgreiðsla Fabios Grossos í fjærhornið, eitt núll. Klinsmann rak sína menn fram á hliðarlínunni, en þá tekur varnarstjarnan Cannavaro uppá því að bera boltann upp miðjuna, stórsókn, sem endar með afgreiðslu Del Pieros í fjærhornið, tvö núll. Leikurinn búinn og sannarlega betra liðið sem þarna komst áfram í úrslitaleikinn í Berlín á sunnudaginn.

Ég næ þá að horfa á leikinn um þriðja og fjórða sætið á laugardaginn við Brandenborgarhliðið, sem mér skilst að sé ekki síður spennandi en að vera á vellinum í Þýskalandi. Það er óskandi, að þrátt fyrir tapið, að þá verði þessari þjóðarvakningu í þessu stóra landi ekki snúið við, hér eftir horfa menn fram á veginn, ekki aftur, eru stoltir af sér og sínum og hagvöxturinn er meira að segja þegar farinn að hressast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×