Fótbolti

Bandaríkjamenn falast eftir Klinsmann

Klinsmann mætir á blaðamannafund
Klinsmann mætir á blaðamannafund MYND/AP

Það eru uppi sögusagnir um að bandaríska knattspyrnusambandið hafi áhuga á að fá Jurgen Klinsmann, þjálfara Þjóðverja, til að leysa Bruce Arena af sem landsliðsþjálfari. Breska blaðið Daily Telegraph greinir frá þessu í dag.

Eins og oft hefur komið fram þá er Klinsmann búsettur í Bandaríkjunum, en það fór mjög í taugarnar á Þjóðverjum áður en HM byrjaði. Öll gremja í garð Klinsmann er fokin út í veður og vind vegna vasklegrar framgöngu landsliðsins á HM.

Talið er að Bandaríkjamenn séu tilbúnir að greiða ríkulega fyrir þjónustu Klinsmann sem er skyndilega orðinn einn af vinsælustu mönnum Þýskalands.

Það er því nokkuð ljóst að Þjóðverjar eiga líklega ekki eftir að vilja missa þennan drífandi þjálfara. Hann er hvergi smeykur við að sýna tilfinningar sínar á hliðarlínunni og hefur hrifið alla þjóðina með sér.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×