Fótbolti

Hvað segja menn núna Sven?

,,Þeir börðust vel 10, en við töpuðum leiknum og það er sárt'' sagði Sven Göran í viðtali áðan, skiljanlegt, en hvernig hefði verið að spila betur 11? Það er ljóst, Englendingar fara heim, Portúgal áfram, að mörgu leyti óverðskuldað, sýndu ekkert umfram Englendinga í kvöld, nema að þeir eru betri í vítakeppni. Rauða spjaldið á Rooney var harður dómur, engin spurning, tveggja fóta tælkling í seinni hálfleik var um margt harður dómur, hefði hæglega getað verið gult miðað við tveggja fóta tæklingu Portúgala í fyrri hálfleik.

En er þetta skýringin? Þegar Englendingar voru jafn margir, gerðu þeir ekkert meira en venjulega, sem minnst, spiluðu frábæra vörn en sóknarleikurinn dapur, en var það taktíkin að sögn þjálfarans, Svens sænska. Hvað lagði hann þá upp í lokin, fyrst vítakeppnin var Englendinga eina von? Ricardo markmaður andstæðinganna er frægur fyrir að verja víti, skora reyndar sjálfur úr þeim líka líktog á EM fyrir tveimur árum. Þetta var endurtekið efni, Portúgalarnir frekar öruggir, þótt þeir brenndu af líka, en Englendingarnir hrein hörmung, alger skandall, ótrúlegt að þeir hafi æft vítaspyrnur jafn slappt og þetta var. Þessi kveðjusöngur Svens var einsog vonir stóðu til, lágstemd lag, undirleikur á falskt harmóníum í íslenskri sveitakirkju, og söngurinn í rangri tóntegund.

Það er ekki hægt annað en að finna til með enska liðinu, það eru skelfileg vonbrigði fyrir alla að detta út þegar svona langt er komið í keppninni, en Portúgal er ekki sérlega spennandi kostur, nema ef vera skildi að Deco komi aftur með svolitlum glamúr! Góði guð, gefðu að Frakkar og Brassar verði flottur leikur, jafnvel að Frakkarnir vinni og þá verður gaman í undanúrslitum á þriðjudaginn. Rónaldó getur hinsvegar strax sett: Til leigu skilti í stofugluggann á húsinu sínu í Manchester, sá á ekki auðfúsugestur í þeirri sveit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×