Fótbolti

Fagurfræði eða eyðileggingarfótbolti

Síðustu leikirnir í sextán liða úrslitum í dag, allir vilja Brasilíumenn áfram, og svo skiptist heimurinn í tvo hluta þegar kemur að Frökkum og Spánverjum, nú skiptir fagurfræðin ekki lengur máli, heldur árangur. Það er ofur eðlilegt að það seinna komi fyrst, það var augljóst á leik Svisslendinga og Úkraínumanna í gær, að öryggið var fyrir öllu, verjast vel og vandlega og vona að það detti mark uppúr löngu innkasti eða skyndisókn. Þetta hefur stundum verið kallaður eyðileggingarfótbolti, hugsa fyrst og fremst um að brjóta niður allt sem andstæðingurinn reynir að byggja upp, og hafa lítið fram að færa umfram það.

Allt í fínu með það, að sama skapi skiptir engu hvernig hinir umdeildu Englendingar spila, þeir eru komnir áfram, þeir ná árangri og það er það sem gildir. Þetta er rétt, þótt það megi líka hugsa sem óháður áhorfandi, frjáls maður í frjálsum fótboltaheimi, að það skipti líka máli að spila vel. Ég hef aldrei verið duglegur að halda með liðum, frekar en stjórnmálaflokkum, en verið veikur fyrir flinkum einstaklingum á vellinum og liðsheildinni þegar vel tekst til. Hvort er skemmtilegra að horfa aftur á hrútleiðinlegan fótboltaleik eða fallegan og vel leikinn? Myndi einhver vilja leigja spóluna með leið Úkraínumanna í átta liða úrslitin á HM, frekar en ferðalag Argentínumanna í keppninni til þessa? Þetta er einsog munurinn á bíómynd með Claude Van Damme og Robert Deniro, sykurlausu gosi eða Rioja rauðvíni.

Árangur er samt sem áður eini mælikvarðinn á HM, þeir sem vinna leikinn, vinna leikinn, en þegar kemur að því að sökkva sér ofaní HM minningar, hugsa um falleg mörk, leikmenn og lið, þá fær fagurfræðin alltaf fyrstu verðlaun






Fleiri fréttir

Sjá meira


×