Fótbolti

Argentína, 12 stig

Ég hef aldrei verið í annarri eins fótboltastemningu og var í Frankfurt í fyrrakvöld, Argentína og Hollandi, stórmeistarajafntefli og allt það, en argentínsku áhorfendurnir voru á heimsmælikvarða. Það var næstum vandræðalegt að hlusta á Hollendingana kalla: Áfram Holland, minnti mig á landsleik á Laugardalsvellinum, og hvað við erum ófrjó í hugsun þegar kemur að hvatningu. Argentínumennirnir sungu hástöfum allan tímann, heilu ljóðabálkana að því er virtist, við undirleik 6 trommuleikara, þvílíkur hávaði og ekki ónýt umgjörð um sjálft fótboltaliðið, ég hef sjaldan séð annað eins lið, Riquelme kóngur og menn hans.

Í dag breytir HM um stefnu, sextán liða úrslit, búið að skilja lélegu liðin frá, sextán bestu eftir. Í Frankfurt eru menn harðir á því að Þjóðverjarnir séu með gott lið, samt er enginn sem ég hef talað við ánægður með leik sinna manna, sem er furðulegt, og Klinsmann fær trúlega ekki reista styttu af sér jafnvel þótt þeir taki dolluna. Ég á erfitt með að botna í þessu, reyndar er þjóðernishyggjan komin úr felum, fánar útum alla borg, einsog Arthúr Björgvin benti á í viðtali, þetta er nýtt, fólk er stolt af fánanum, og ekki lengur bugað af seinni heimstyrjöldinni.

Ég held að þrátt fyrir að riðlakeppnin hafi verið stórgóð, þá verða sextánliða úrslitin ennbetri, bara snilld, og þvílíkir dásemdar dagar framundan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×