Fótbolti

Flugfreyjurnar í fótboltanum

Það er bara töluð spænska í kaffiteríu blaðamanna hér á vellinum í Frankfurt, stöku kollegi pantar sér gúllassúpu á portúgölsku og ég sá áðan hollenskan blaðamann í appelsínugulri treyju innanundir vestinu.

Þótt það sé ekki mikið í húfi á þessum leik Argentínumanna og Hollendinga Þá er stoltið undir, líkt og ég sá í andlitum mexíkósku áhorfendanna sem töpuðu fyrir Portúgal rétt í þessu.

Það eina sem skiptir máli í riðlakeppninni er í rauninni að komast áfram. Raunar er líka mikið atriði á móti hverjum liðin lenda en samt ekki. í sextán liða úrslitum er bara einn einasti leikur, tveir möguleikar: áfram eða rakleitt heim.

Mér finnst hollensku áhangendurnir sem hafa betrekkt miðbæ Frankfurt í allan dag ekki vera sérlega bjartsýnir, búast varla við sigri og eru þess albúnir að mæta Portúgal í næsta leik. Þetta gæti engu að síður orðið þægileg kvöldskemmtun, alveg eins og leikur Englendinga og Svía í gær.

Mér fannst Englendingar eiga skilið að vinna leikinn í fyrri hálfleik, Svíarnir í þeim síðari. Og þess vegna var jafntefli fyllilega sanngjarnt og það sem meira er, ég fékk martröð í nótt; Englendingar vinna HM !

Kannski ósanngjarnt að segja martröð eða frekar óþægilegur draumur.

Ég er sammála þeim sem ég hef talað við sem vilja að besta fótboltaliðið vinni á HM. Þá er mér sama hvort þeir heita Spánverjar, Þjóðverjar, Argentínumenn eða eitthvað annað.

Það er auðvitað blessun að Grikkirnir eru ekki með. Þá er sá möguleiki á leiðindum frá.

En hér við völlinn í Frankfurt skín gleði úr hverju andliti. Miðaldra prentari í appelsínugulum búningi er að drekka kók og troða í sig heimagerðri Frankfurtarpylsu. Það er lykt af nýslegnu grasi og svitalykt í loftinu. Betra er að vera á vellinum frekar en að troðast kurteislega á FIFA jet-svæðinu innan um konur í drögtum og karlmenn með bindi og mikinn rakspíra, sem ég sá í gær á vellinum í Köln.

Þegar vallarverðirnir eru klæddir eins og flugfreyjur þá er þetta hætt að snúast um fótbolta.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×