Fótbolti

HM kirkjan í Köln

Kaflaskil, næst í HM messunni þriðja umferð í riðlunum, næstu fjórir dagar ákvarða sextán liða úrslitin. Ég verð alltaf svolítið sorgmæddur þegar hér er komið í keppninni, nú eru það sigurvegararnir sem halda áfram, hinir fara heim. Það er sjálfsagt ekki gaman að vera í franska landsliðinu, ef þeir tapa fyrir Tókó, og örugglega engin móttökuathöfn í París þegar þeir koma heim, kannski breytist þetta ef þeir vinna, það spyr enginn hvernig gekk í riðlakeppninni þegar komið er í úrslitakeppnina, þá gildir hver leikur, punktur.

Ég hlakka til að sjá leik Englendinga og Svía í návígi á morgun, á vellinum í Köln, maður hefur allt aðra tilfinningu fyrir leiknum á vellinum, heldur í sjónvarpinu. Kassinn býr til ákveðna fjarlægð, ákveðið sjónarhorn sem myndavélarnar afmarka, og jafnvel þótt þær séu margar, þá er það ekki eins. Þetta er leikur um heiður, Svíarnir verða að vinna til að létta mesta þunglyndinu af sænsku þjóðinni, Englendingar til að sanna fyrir umheiminum að þeir geti unnið alvöru lið. Kannski er þeirra tími kominn, Magnús Pétursson fyrrverandi knattspyrnudómari er sannfærður um það, og því ekki það, þótt mér hafi þótt Spánverjarnir taka vel á sínum málum á móti Túnis. Það er styrkur, þegar þjálfarinn fyrir utan völlinn les leikinn, gerir nauðsynlegar breytingar og á svo mannskap á bekknum til að bæta við því sem þarf. Raul og Fabrigas gerðu gæfumuninn, þvílíkt jöfnunarmark hjá Raul, ekki áferðarfallegt, en svona gera bara alvöru senterar, bíða færis og setja svo tánna í boltann á réttu augnabliki.

Köln, allt sprengt í seinna stríði nema stóra dómkirkjan, það eru tveir helgir staðir í borginni á leikdag, kirkjan og svo HM helgidómurinn, vona að messan verði ekki svæfandi, heldur tómur andlegur og líkamlegur hasar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×