Fótbolti

Spánn valtaði yfir Úkraínu

David Villa spyrnir af vítapunktinum í leiknum við Úkraínu
David Villa spyrnir af vítapunktinum í leiknum við Úkraínu MYND/AP

David Villa var maður leiksins og skoraði tvö mörk gegn Úkraínu í 4-0 sigri Spánverja í fyrsta leik dagsins á HM.

Þó að David Villa hafi verið maður leiksins með tvö mörk þá var ekki auðvelt að velja einn mann leiksins því að ekki var einn slakur leikmaður í liði Spánar í dag, allir spiluðu frábærlega og má þar t.d. nefna Xavi og Senna sem voru frábærir inni á miðsvæðinu.

Xabi Alonso skoraði fyrsta markið eftir hornspyrnu á 13. mínútu og Fernando Torres það fjórða á 81. mínútu eftir magnað samspil við Charles Puyol í síðari hálfleik. David Villa skoraði fyrra mark sitt beint úr aukaspyrnu á 17 mínútu eftir viðkomu í varnarvegg Úkraínumanna og seinna mark hans kom úr víti í seinni hálfleik eftir að brotið var á Torres í teignum, það var samt vafasamur dómur því að lítil sem engin snerting virtist eiga sér stað.

Spánverjar voru með algera yfirburði í leiknum og léku sér á köflum að Úkraínumönnunum. Þetta er án efa besta frammistaðan sem sést hefur á mótinu til þessa og verða Spánverjar að teljast mjög líklegir til árangurs eftir þessa frammistöðu.

Spánverjar nýttu allar þrjár skiptingar sínar í leiknum og komu Raul, Albelda og hinn ungi Arsenalmaður Cesc Fabregas inn á í seinni hálfleik. Fabregas er þar með orðinn yngsti leikmaður Spánar frá upphafi til að spila í lokakeppni HM og stóð hann sig með prýði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×